Stelpur rokka! í heimsókn í rokkbúðirnar í Póllandi

Við vorum svo heppnar að fá að heimsækja rokkbúðirnar í Póllandi sem heita Karioka Girls Rock Camp. Rokkbúðirnar voru haldnar rétt fyrir utan bæinn Bielsko- Biala í suðurhluta Póllands dagana 24. til 29. ágúst. Sextán stelpur á aldrinum 14 til 18 ára rokkuðu stíft allan sólarhringinn en þátttakendur gistu í búðunum og því var mikið fjör langt fram á nótt. Margrét Arnardóttir, sjálfboðaliði hjá Stelpur rokka!, aðstoðaði við hljómsveitaskipulag og spilaði á hljómborð í tveimur hljómsveitum sem voru myndaðar í búðunum. Áslaug Einarsdóttir, umsjónarkona Stelpur rokka!, fór líka út sem sjálfboðaliði og gerði kynningarstiklu um búðirnar sem kemur út fljótlega. Rokkvikunni lauk með stórglæsilegum tónleikum þar sem hljómsveitirnar fluttu tvö til þrjú frumsamin lög auk tökulaga. 

Sjálfboðaliðahópur Karioka Girls Rock Camp

Heimsóknin var liður í samstarfi Stelpur rokka! við Karioka Girls Rock Camp, en fulltrúar frá Karioka komu tvisvar til Íslands á árinu og störfuðu m.a. sem sjálfboðaliðar í 13 til 16 ára rokkbúðunum í Reykjavík. Við hlökkum mikið til að starfa meira með pólsku rokkbúðunum í framtíðinni og þökkum þeim kærlega fyrir frábæra heimsókn.  

Lesa meira um Karioka Girls Rock Camp