Stelpur rokka! á ráðstefnu Rokkbúðabandalagsins

Stelpur rokka! eru hluti af alþjóðlegri hreyfingu rokkbúða út um allan heim sem heitir Rokkbúðabandalagið, Girls Rock Camp Alliance. Í lok mars á hverju ári hittast rokkbúðaskipuleggjendur frá yfir 50 rokkbúðum yfir langa helgi og skiptast á hugmyndum um starfið, deila reynslusögum og fræða hvora aðra um þau málefni sem brenna á fólki á hverjum stað.

Stelpur rokka! sendu sjö fulltrúa á ráðstefnuna síðustu helgi með stuðningi bandaríska sendiráðsins á Íslandi. Dagskrá ráðstefnunnar í ár var gríðarlega fjölbreytt og áhugaverð. Við fræddumst m.a um mátt tónlistar til samfélagsbreytinga & sögu mótmælasöngva, tónlistina í Black Lives Matter hreyfingunni og stöðu hreyfingarinnar í dag, hvernig á gera rokkbúðir og samfélagið allt að betra rými fyrir transkrakka og transfólk,  um stöðu flóttafólks í Evrópu, og hvernig rokkbúðasamfélagið getur spornað við húsnæðisóöryggi & hótelvæðingu í þeim borgum sem við störfum, svo fátt eitt sé nefnt. 

Ráðstefna Rokkbúðabandalagsins veitir okkur mikinn innblástur til að halda áfram starfinu okkar, tengjast öðrum konum frá ólíkum svæðum og samfélögum og ekki síst til að valdefla hvora aðra í þeirri baráttu sem við erum öll hluti af, baráttunni fyrir réttlátara og jafnara samfélagi. 

Við komum heim með töskurnar fullar af hugmyndum um starfið sem við hlökkum til að sýna í verki á næstu mánuðum! 

Hér má lesa nánar um Rokkbúðabandalagið