Skráning hafin í alþjóðlegar rokkbúðir í Berlín fyrir 16 til 30 ára

FLYER_MEME18.jpg

 

Stelpur rokka! kynna: 

Alþjóðlegar rokkbúðir í Berlín 23. - 29. júlí nk. (22. júlí sem ferðadagur)

fyrir ungmenni á aldrinum 16-30 ára!


Stelpur rokka! eru hluti af alþjóðlegu samstarfsneti rokkbúða og í sumar verða í fyrsta skipti haldnar alþjóðlegar rokkbúðir í Evrópu. Búðirnar eru hluti af verkefninu MEME: Music Empowerment Mobility and Exchange, en sótt hefur verið um styrk frá Erasmus+ til að halda ungmennarokkbúðir í Berlín í júlí 2018, ásamt ráðstefnu fyrir skipuleggjendur rokkbúða sem fer fram í Serbíu í september 2018.*

 

Samtökin Ruby Tuesday í Berlín halda utan um ungmennarokkbúðirnar í júlí. Þar munu koma saman 60 ungmenni á aldrinum 16-30 ára, ásamt 30 skipuleggjendum og leiðbeinendum, frá 11 mismunandi rokkbúðasamtökum í Evrópu: Serbíu, Póllandi (tvö samtök), Noregi, Íslandi, Svíþjóð, Írlandi, Bretlandi, Finnlandi, Austurríki og Þýskalandi.

 

Þátttaka í rokkbúðunum kostar ekkert. Öll ferðalög, gisting og matur er innifalið í þátttöku. Í búðunum er aðgengi fyrir fólk með hreyfihömlun. Ferðakostnaður og uppihald aðstoðarmanneskju eða stuðningsfulltrúa fyrir þátttakendur sem á þurfa að halda er greiddur að fullu. Í búðunum verður slökunarrými ætlað öllum sem vilja eða þurfa að nýta sér það, og komið verður til móts við fjölbreyttar þarfir þátttakenda eftir fremsta megni í samráði við gestgjafana (Ruby Tuesday í Berlín).

Sís og trans stelpum/konum, trans strákum/körlum, kynsegin og intersex ungmennum er velkomið að taka þátt.

 

Við hvetjum þau ungmenni sem annars eiga ekki kost á að taka þátt í alþjóðlegu starfi af þessu tagi (t.d. sökum efnahags, aðgengismála, mismununar eða annarra áhrifaþátta) eindregið til að sækja um að taka þátt í rokkbúðunum í Berlín!

 

Rokkbúðirnar fara fram í félagsmiðstöð fyrir ungmenni í FEZ, tónlistarakademíunni í Berlín.
Í búðunum verður hægt að skrá sig í eina af þremur mismunandi “línum”:

1. Tónlistarsköpun og hljómsveitastarf (music making and band formation track)

Í búðunum verða 8-10 fullbúin æfingarými. Þátttakendur sem velja þessa línu eiga kost á hljóðfæratímum og stofna síðan hljómsveit, semja lög og æfa. Þau bönd sem vilja koma síðan fram á lokatónleikum!


2. Fjölmiðlar, ljósmyndir og vídeó (media making and documentation track)

Í búðunum verður “kvikmyndagerðar- og fjölmiðlamiðstöð”, rými útbúið tölvum, myndvinnsluforritum, myndavélum og öllum búnaði til hljóðupptöku. Þátttakendur sem velja þessa línu sjá um að útbúa kynningarefni um búðirnar, taka myndir, vídjó, viðtöl, texta o.fl, undir handleiðslu reynds kvikmyndagerðar- og fjölmiðlafólks.


3. Skipulag og verkefnastjórnun (organising track)

Þátttakendur sem velja þessa línu munu taka virkan þátt í framkvæmd og skipulagi búðanna sjálfra, og sjá alfarið um skipulagningu tveggja viðburða í rokkbúðavikunni (með stuðningi frá skipuleggjendum); tónleika með hljómsveitum frá Berlín á miðvikudeginum og lokatónleika með búðaböndum á sunnudeginum. Um leið munu þeir læra um verkefnastjórnun, fjáröflun og allt sem þarf til að koma eigin hugmyndum í framkvæmd - auk þess að fræðast um jafnréttisstarf og aktívisma, samstarf ólíkra hópa, hvernig hægt er að leysa úr ágreiningi á farsælan hátt og byggja upp lýðræðislegar hreyfingar.


Um er að ræða fyrstu alþjóðlegu rokkbúðirnar og þær verða framkvæmdar í nánu samstarfi allra sem að þeim koma, bæði skipuleggjenda og þátttakenda. Allir sem koma að MEME verkefninu, hvort sem það eru þátttakendur, sjálfboðaliðar eða skipuleggjendur, hafa áhrif á hvernig verkefnið mun þróast og hvernig framhald þess verður. Lögð er áhersla á að skapa rými þar sem allir þátttakendur eru virtir á eigin forsendum, ólíkir styrkleikar fá að njóta sín, og hver og einn tekur ábyrgð á eigin gjörðum.

 

Í búðunum verða töluð mörg tungumál. Leiðbeinendur og túlkar verða til staðar og það verður séð til þess að allir skilji og geti tekið þátt í öllu sem fram fer.

 

 

Hér er að finna allar nánari upplýsingar um ungmennarokkbúðirnar á ensku.

Fyrir allar spurningar og vangaveltur er best að hafa samband við Auði Viðarsdóttur í tölvupósti: audurvid@gmail.com

 

Einnig er hægt að hringja í Eyrúnu Ólöfu í síma 897-0484.

 

*  Ath. Enn er verið að bíða eftir staðfestingu um að styrkur frá Erasmus+ hafi fengist. Engu að síður er skipulag hafið og því erum við nú þegar byrjuð að taka á móti umsóknum frá þátttakendum - með þeim fyrirvara að fjármagn fáist  :)