Kvennarokkbúðir fyrir 18 ára og eldri á Akureyri 2019

31. Maí til 2. jÚNÍ

 

Kvennarokkbúðirnar okkar eru skemmtilegasta helgi ársins!

Í kvennarokkbúðunum hittast konur (sís og trans), trans menn og kynsegin einstaklingar, 18 ára og eldri, yfir eina helgi og fá kennslu á hljóðfæri, spila saman í hljómsveit, semja lag og halda tónleika

Í kvennarokkbúðunum bjóðum við líka upp á ýmsar fræðandi vinnusmiðjur. Við höfum t.d verið með vinnusmiðjur í textagerð, growl söng, sjálfsvörn, kvennarokksögu, rappsögu, spunasmiðju, raftónlistarsmiðju og sviðsframkomu. Tónlistarkonur koma í heimsókn og halda hádegistónleika og á kvöldin eru kvikmyndasýningar og karaoke partý.  

Engin reynsla af tónlist er nauðsynleg. Þátttakendur koma úr ólíkum áttum og eru á ólíkum aldri. Í rokkbúðunum undanfarin ár hafa konur, trans og kynsegin einstaklingar frá tvítugu til sextugs mætt og samið og spilað tónlist saman, en það eru engin aldurstakmörk, ömmur og langömmur eru hjartanlega velkomnar! 

Margir þátttakendur hafa aldrei snert hljóðfæri áður eða komið fram á sviði, og aðrir hafa lengi verið í tónlist en vilja prófa að semja og spila með öðrum í afslöppuðu og innilegu umhverfi. Kvennarokkbúðirnar eru frábært tækifæri til að fá útrás, ögra sjálfum sér og upplifa valdeflandi samvinnu og sköpunargleði.

 

Viðmiðunarþátttökugjald í kvennarokkbúðir er 20.000 krónur en engum þátttakenda er vísað frá sökum fjárskorts. Lesa um valfrjáls þátttökugjöld

Innifalið er um 26 tíma dagskrá yfir heila helgi (hljóðfærakennsla, vinnusmiðjur, tónleikaheimsókn, hljómsveitaæfingar og fleira) og hádegismatur, kaffisnarl og kvöldmatur yfir helgina. 

Kvennarokkbúðirnar verða haldnar í Rósenborg, menningarmiðstöð á Akureyri. Aðgengi er gott í húsnæðinu, lyfta er á milli hæða. Fyrir nánari upplýsingar um aðgengi vinsamlega sendið póst á info@stelpurrokka.is

Það er ótrúlegt hvað hægt er að semja mikla tónlist á einni helgi! 

Að fá að vera trommari í rokkbandi í smástund er ein besta útrás og afslöppun í senn sem ég hef upplifað. Takk fyrir mig!
— Erla, þáttakandi í kvennarokkbúðum 2013
Upptaka frá lokatónleikum kvennarokkbúða sumarið 2018. 4 brakandi fersk bönd! Fjólublá viðvörun, Trans Siberian Punk Express, Flæðingar og Pleasure Pain