Stelpur rokka! og GRCA Europe kynna:

MEME Vol. 2: MUSIC EMPOWERMENT MOBILITY & EXCHANGE
Alþjóðlegar rokkbúðir og ungmennaskipti á Íslandi í ágúst!

SKRÁ ÞÁTTTÖKU


Hvað er MEME Vol. 2?

meme 2019 final-01-01.png

MEME stendur fyrir: “Music Empowerment Mobility and Exchange” og er Evrópskt samstarfsverkefni sem miðar að valdeflingu ungmenna í gegnum tónlistarsköpun og samvinnu.

Verkefnið er styrkt af Erasmus+, samstarfsáætlun ESB.

Þetta árið munu 12 rokkbúðasamtök víðs vegar um Evrópu standa að verkefninu MEME Vol. 2, í kjölfar vel heppnaðs MEME verkefnis síðasta árs, sem fól í sér alþjóðlegar rokkbúðir í Berlín og ráðstefnu fyrir skipuleggjendur rokkbúða í Belgrad.

Líkt og í fyrra eru það íslensku rokkbúðasamtökin Stelpur rokka! sem leiða verkefnið. Í ágúst n.k. verða haldnar vikulangar alþjóðlegar ungmennarokkbúðir á Íslandi, þar sem yfir 110 ungmenni og leiðbeinendur frá a.m.k. 10 löndum munu koma saman, læra á hljóðfæri, mynda hljómsveitir og semja lög, prófa sig áfram á sviði kvikmyndagerðar og fjölmiðlunar, deila reynslu sinni og læra um verkefnastjórnun og hvernig hægt er að byggja upp alþjóðlega hreyfingu.

Ásamt Stelpur rokka! munu eftirfarandi samtök taka þátt í verkefninu: ATEM (Þýskaland), OPA / Femix (Serbía), Fundacja Pozytywnych Zmian og Stowarzyszenie Kobieca Transsmisja (Pólland), Girls Rock Dublin (Írland), Girls Rock London (Bretland), Girls Rock! Finland og Rock Donna (Finnland), JM / LOUD (Noregur), Pink Noise (Austurríki) og Popkollo (Svíþjóð).

Öll samstarfssamtökin starfa í anda rokkbúðahugmyndafræðinnar, sem byggir á femínískum gildum og miðar að valdeflingu stelpna, trans, intersex og kynsegin ungmenna í gegnum tónlistarsköpun. Í rokkbúðunum koma ungmenni saman, læra á hljóðfæri, stofna hljómsveit og semja lag með stuðningi leiðbeinenda, og koma svo fram á lokatónleikum.


Hvar fer MEME Vol. 2 fram?

Hvanneyri.jpg

Alþjóðlegu rokkbúðirnar á Íslandi munu fara fram á Hvanneyri í Borgarfirði. Þátttakendur og leiðbeinendur munu gista í húsnæði sem tilheyrir Landbúnaðarháskólanum, og þar mun jafnframt öll dagskrá búðanna fara fram. Öll aðstaða sem við munum nýta okkur verður aðgengileg fyrir fólk með hreyfihömlun.

Lokatónleikarnir verða haldnir í gömlu hlöðunni!

Hvenær?

Rokkbúðirnar standa yfir frá mánudeginum 5. ágúst til mánudagsins 12. ágúst.

Meðan á búðunum stendur munum við bjóða samstarfsaðilum, fjölmiðlum og öðrum áhugasömum á opið hús til að kynna sér verkefnið og það sem það stendur fyrir. Nánari upplýsingar væntanlegar.

Við bjóðum jafnframt öll hjartanlega velkomin á lokatónleika búðanna, laugardaginn 10. ágúst. Nánari upplýsingar um stað og tíma væntanlegar!


Hver taka þátt?

60 ungmenni á aldrinum 16 til 30 ára munu taka þátt í MEME Vol. 2 rokkbúðunum á Íslandi. Þau koma frá a.m.k. 10 löndum: Serbíu, Póllandi, Noregi, Íslandi, Svíþjóð, Írlandi, Bretlandi, Finnlandi, Austurríki og Þýskalandi.

Að auki munu 30 leiðbeinendur, skipuleggjendur og tónlistarfólk frá 11 rokkbúðasamtökum taka þátt í búðunum, ásamt skipuleggjendum og sjálfboðaliðum gestasamtakanna Stelpur rokka!

Þátttakendur búðanna eru:

  • Stelpur og konur (sískynja og trans)

  • Trans strákar og trans karlar

  • Kynsegin einstaklingar og intersex einstaklingar

  • Fólk sem upplifir hindranir og býr við færri tækifæri í tónlistarheiminum og samfélaginu almennt, sökum kyns eða kyntjáningar

Verkefnið er jafnframt ætlað ungmennum með færri tækifæri, og miðar allur undirbúningur að því að hægt verði að mæta ólíkum þörfum ungmennanna, og veita þeim þann stuðning sem þau þurfa til að taka þátt í verkefninu á sínum forsendum.


Hvers vegna MEME Vol. 2?

Verkefnið byggir á femínískum gildum og meðvitund um margþætta mismunun og hefur það að markmiði að berjast gegn hvers kyns jaðarsetningu á grundvelli fötlunar, uppruna, húðlitar, stéttarstöðu o.s.frv, í gegnum tónlist og sköpun.

Öll þátttökusamtök eru hluti af alþjóðlegum regnhlífarsamtökum rokkbúða, Girls Rock Camp Alliance (GRCA). Hingað til hafa þau deilt þekkingu og reynslu með hvert öðru, m.a. á árlegri ráðstefnu skipuleggjenda í Bandaríkjunum. Með þessu verkefni gefst þeim hins vegar tækifæri til að læra af hvert öðru á mjög praktískan hátt, þar sem ungmennin sjálf eru í forgrunni.

Allir þátttakendur í MEME Vol. 2 fá tækifæri til að taka virkan þátt í skipulagningu og framkvæmd verkefnisins og hafa áhrif á þróun þess, ekki síst ungmennin sjálf. Í alþjóðlegu rokkbúðunum viljum við skapa rými þar sem allir fá að njóta sín á eigin forsendum, um leið og við sýnum hvert öðru virðingu og tökum ábyrgð á eigin gjörðum. Þannig getum við skapað eitthvað alveg einstakt. Við vonum að rokkbúðareynslan og þau vináttu- og samstarfsbönd sem MEME Vol. 2 mun skapa verði grundvöllur frekara samstarfs, fleiri verkefna og lifandi tengslanets ungs, skapandi fólks um alla Evrópu og víðar.  


Hvernig?

LínurÍSL.jpg

MEME Vol. 2 alþjóðlegu ungmennarokkbúðirnar á Íslandi standa yfir í eina viku. Í búðunum geta þátttakendur valið um þrjár mismunandi “línur”

-Tónlistarlína-

Líkt og í hefðbundnum rokkbúðum munu þátttakendur læra á hljóðfæri og stofna hljómsveit. Með stuðningi leiðbeinenda mun hljómsveitin semja saman lag og texta til að flytja á lokatónleikum rokkbúðanna.

-Fjölmiðlun og kvikmyndagerð-

Þátttakendur munu starfa með reyndum kvikmyndagerðarkonum, ljósmyndurum og fleirum að því að skrásetja búðirnar í gegnum myndir, myndskeið, hljóðupptökur, viðtöl, texta, hlaðvarpsþætti og samfélagsmiðla, allt eftir því hvar áhuginn liggur.

-Verkefnastjórnun og skipulag alþjóðlegra hreyfinga-

Þátttakendur munu læra um lárétta verkefnastjórnun og lýðræðislegt skipulag samtaka og alþjóðlegra hreyfinga. Þeir munu fá hvatningu og leiðsögn til að hrinda eigin hugmyndum í framkvæmd, auk þess sem þau munu skipuleggja og standa að tveimur viðburðum í búðunum sjálfum: tónleikum í miðri viku með íslenskum hljómsveitum, og lokatónleikum búðanna.

Til viðbótar verður boðið upp á úrval vinnusmiðja um fjölbreytt viðfangsefni. Á kvöldin verður farið í leiki, horft á myndir, sungið, dansað, farið í jóga og föndrað, auk þess sem boðið verður upp á skoðunarferðir, enda umlykur einstök náttúrufegurð svæðið. Það verður líka séð til þess að nægur frítími verði til að slaka á og kynnast hvert öðru!

Upplýsingar um verkefnið má nálgast hér á heimasíðunni og á samfélagsmiðlunum okkar:

Einnig má senda tölvupóst á audur@stelpurrokka.is eða info@stelpurrokka.is