Sjálfboðaliðar rokksumarbúðanna eru hornsteinninn í starfinu okkar. Öllum konum, transmönnum og kynsegin einstaklingum, átján ára og eldri, er velkomið að vera sjálfboðaliðar hjá okkur og hópinn skipa nú um 40 manns. Flest höfum við bakgrunn í tónlist og reynslu af starfi með ungu fólki en það er þó ekki nauðsynlegt til að gerast sjálfboðaliði. Það eina sem þarf er brennandi áhugi á starfinu og vilji til að vera góð fyrirmynd sem þátttakendurnir okkar spegla sig í. 

Anna Sæunn Ólafsdóttir 

Auður Svavarsdóttir 

Auður Viðarsdóttir hefur unnið með Stelpur rokka! frá fyrsta sumarinu okkar árið 2012. Auður hefur verið söngkennari og hljómsveitarstýra, í rokkbúðunum í Reykjavík og á Akureyri og í kvennarokkinu. Svo sér hún líka um ýmsa skipulagningu, mat og allskonar. Auður hefur lært klassískan söng og djassöng, spilað í rokkhljómsveit í mörg ár og er sjálflærð á hljómborð og syntha. Svo er hún í meistaranámi í þjóðfræði í Háskóla Íslands að læra allskonar um allskonar. Auður fékk fyrsta hljómborðið sitt þegar hún var fimm ára í jólagjöf frá jólasveininum þegar hún bjó í Kanada. Hún lagði mikið kapp á að læra á það fyrst hann kom því til hennar alla leið frá Íslandi!

Áslaug Einarsdóttir er framkvæmdastýra Stelpur rokka! Hún heldur utan um daglegan rekstur og gengur í flest verkefni í rokkbúðunum. Stundum er hún t.d hljómsveitastýra eða hljómborðskennari. Áa er mannfræðingur og heimildarmyndagerðarkona og flakkar mikið á milli Reykjavíkur, Grímsness og Kaliforníu. Hún er líka stjórnarmeðlimur í Rokkbúðabandalaginu og fer fyrir Evrópunefnd Rokkbúðabandalagsins árið 2014-2015. Áu dreymir um að eignast píanópoppstjörnuhliðarsjálf. 

Berglind Erna Tryggvadóttir spilar á klarinett og finnst gaman að dansa og elda. Hún æfir sig líka stundum á bassa og alls konar skrítin hljóðfæri. Berglind er að læra myndlist í listaháskólanum. Þar býr hún til hluti og tekur myndir og skrifar og teiknar og alls konar. Hún hefur bæði verið þátttakandi í rokkbúðum og verið hljómsveitastýra og finnst það geggjað stuð! 

Erla Elíasdóttir Völudóttir er þýðandi og karaoke-unnandi með menntun í klassískum píanóleik. Erla hefur m.a. starfað sem tónlistarkennari á Seyðisfirði og tók þátt í sjálfboðastarfi Stelpur rokka! sumurin 2012, 2014 & 2015 sem hljómborðskennari og hljómsveitarstýra.

Elísabet Elma Líndal Guðrúnardóttir (Bóbó) er plötusnúður með grunn á gítar, bassa og trommur. Hún hefur verið hljómsveitastýra hjá Stelpur Rokka undanfarin þrjú ár. Þess á milli hefur Bóbó kennt nokkra grunntíma á gítar og hannað lógó og plaköt fyrir búðirnar.

Eyrún Ólöf Sigurðardóttir er tómstundafræðingur með áralanga reynslu af barna- og unglingastarfi og sérleg áhugamanneskja um stelpnamenningu og rokk. Eyrún gekk til liðs við Stelpur rokka! sumarið 2015 sem hljómsveitarstýra og heldur líka utan um vinnusmiðjur og ýmislegt tilfallandi. Hún býr til skiptis á Íslandi og í hinum ýmsu útlöndum og dreymir um að stofnsetja rokkbúðir í þeim öllum. Eyrún ólst upp við að ekki ætti að hlusta á tónlist á of lágum hljóðstyrk og lifir eftir þeirri speki í dag.

Helga Tryggvadóttir hefur kennt á trommur í Stelpur rokka síðastliðin þrjú sumur. Hún byrjaði sinn tónlistarferil með því að labba inn í hljóðfærabúð og kaupa sér trommusett en fram að því hafði hún ekki spilað á hljóðfæri. Í kjölfarið stofnuðu þær Katla hljómsveitina Viðurstyggð og þær spiluðu á fyrstu tónleikunum sínum þremur vikum síðar. Síðan þá hefur Helga smám saman lært meira á trommur og er ennþá að læra í dag!

Hildur Berglind Arndal 

Hildur Kristín Stefánsdóttir

Hildur Vala Einarsdóttir

Ingibjörg Elsa Turchi er tónlistarkona og spilar á bassa í hinum ýmsu verkefnum, þar má nefna Babies flokkinn, Boogie Trouble, Ylju, Teit Magnússon, Bubba Morthens og fleiri. Hún hefur lært á hljóðfæri frá 6 ára aldri, eins og píanó, gítar og harmonikku en stundar nú nám á rafbassa við jazzdeild FÍH. Ingibjörg hefur verið með í Stelpur rokka! frá stofnun þess hérlendis og kennt á bassa og gítar og verið hljómsveitarstýra. Síðustu tvö ár hefur hún verið í skipulagsteymi Stelpur rokka! og séð þar um ýmis praktísk atriði sem og sinnt áðurnefndum störfum. 

Íris Ellenberger er sagnfræðingur sem spilar ukulele og er nýbúin að læra á trommur. Hún gegnir hlutverki altmuligtmanneskju í búðunum, eldar, skipuleggur, græjar og gerir það sem gera þarf hverju sinni. Svo leiðbeinir hún líka á ukulele og trommur og póstar á tumblr-síðuna.

Júlía Hermannsdóttir stofnaði sína fyrstu hljómsveit 16 ára gömul eftir stutt stopp í barnakór og píanótímum, en með þeirri hljómsveit vann hún titilinn „athyglisverðasta hljómsveitin“ í Músíktilraunum 2005 og spilaði í fyrsta skipti á Iceland Airwaves sama ár. Hún hefur síðan verið í nokkrum hljómsveitum bæði í Reykjavík og New York, en aðal verkefnið hennar núna er hljómsveitin Oyama þar sem hún syngur og spilar á hljómborð. Með Stelpur rokka! hefur Júlía unnið sem hljómsveitarstýra auk þess að hafa kennt vinnusmiðjur um upptöku.

Katla Ísaksdóttir er gamall paunkari úr hinni sígildu og mjög svo frægu kvenna-sveit Viðurstyggð. Hún á sér fleiri hliðar en hún er mikill hippi í anda og hefur meðal annars spilað á gítar í uppsetningu á söngleiknum Hárinu. Katla hefur séð um gítarkennslu í rokkbúðunum og hljómsveitarstjórn. Ofan á allt fjörið hefur hún meistaragráðu í mannfræði og býr um þessar mundir í Montreal í Kanada.

Margrét Arnardóttir hefur tekið þátt í rokkbúðunum í þrjú ár við hljóðfærakennslu og sem hljómsveitastýra og finnst æðislegt að miðla tónlist til yngri kynslóðarinnar og hvetja þær til að búa til sín eigin verkefni. Hún hefur spilað á harmonikku frá 7 ára aldri, en auk þess leikur hún á gítar og hljómborð. Hún er í fjölmörkum tónlistarverkefnum, meðal annars með Bubba og Prins Póló. Margrét er sérstakur áhugamaður um franska- og balkantónlist og vill sjá enn fleiri harmonikkur í rokkinu!

Margrét Hugadóttir er vísinda- náttúru- og tónlistarNörd. Hún elskar tónlist og ferðalög og spilar sjálf á allskonar hljóðfæri. Hún hleypti rokkaranum í sér lausum þegar hún tók þátt í Konurokki árið 2013 þar sem hún stofnaði hljómsveitina Hney með nokkrum snillum. Síðan þá hefur hún verið hljómsveitarstýra í rokkbúðunum, skipulagt off-venue tónleika Stelpur rokka! á Airwaves og undanfarið hefur hún stýrt PR teymi Stelpur rokka! Margrét er líka alltaf til í að skutlast með hljóðfæri og allskonar dót á pallbílnum sínum sem hún kallar Ripley. Mottóið hennar er: Ef ekki þú? Hver þá!? 

Rósa María Óskarsdóttir

Sunna Ingólfsdóttir hefur verið í skipulagsteymi Stelpur rokka! frá upphafi og vinnur þar að fjölbreyttum verkefnum. Í rokkbúðunum hefur hún m.a verið hljómsveitastýra, rokksögukennari, rokknámsráðgjafi, gítarkennari og söngkennari. Sunna er heilsumannfræðingur, lærði lengi vel á fiðlu og stundaði nýlega nám í jazzsöng við FÍH. Sunna hefur komið fram sem söngkona með ýmsum hljómsveitum, þetta árið með hljómsveitunum Adda og Cell7. Sunna er sjálfsskipaður meistari í gerð mixteipa og er ósátt við að kasettur séu ekki vinsælar í dag.

Sunna Karen Einarsdóttir

Sunna Lind Simar

Steinunn Harðardóttir 

Tinna Þorvaldsdóttir Önnudóttir er menntuð leikkona og lærir söng í Tónlistarskólanum í Reykjavík.  Hún hefur verið sjálfboðaliði með Stelpur rokka! síðan 2013 og hefur verið hljómsveitarstýra og trommukennari, auk þess sem hún hefur séð um leikja- og sviðsframkomuvinnusmiðjur.