Langar þig að vera ungliði hjá Stelpur rokka!?

 

Við bjóðum nú í fyrsta skipti upp á spennandi sjálfboðaliðaverkefni fyrir 16 til 18 ára stelpur sem hafa komið áður í rokkbúðirnar.

Um er að ræða skemmtilegt tækifæri til að kynnast helstu verkefnum sjálfboðaliða í rokkbúðunum, innsýn inn í skipulag og framkvæmd rokkbúðanna, reynslu í að leiðbeina öðrum stelpum og miðla tónlistarþekkingu og síðast en ekki síst tækifæri til að vera góð rokkfyrirmynd fyrir yngri stelpur. 

Sjálfboðaliðaverkefnið mun fara fram í rokksumarbúðunum fyrir 10 til 12 ára stelpur í Reykjavík dagana 15. júní til 19. júní. Það er frí 17. júní.

Helstu verkefni ungliða hjá Stelpur rokka! eru að taka ljósmyndir í búðunum, skrifa fréttir á tumblr bloggið okkar, hjálpa til við stilla upp og flytja hljóðfæri og hafa meðumsjón með áhugaverðum vinnusmiðjum. Ungliðar geta líka verið meðhljómsveitastýrur eða hjálpað til við hljóðfærakennslu.

Ungliðarnir mæta alla dagana, um það bil hálfan dag í senn, en mæting er sveigjanleg og í samráði við verkefnastýrur. Ungliðarnir munu starfa tveir og tveir saman og mun Ingibjörg Elsa Turchi verkefnastýra Stelpur rokka! leiðbeina ungliðunum. 

Innifalið er fræðsla um Stelpur rokka!, hádegismatur alla dagana og ferðaþóknun sem nemur 4000 krónum fyrir vikuna. 

Í lok vikunnar fá ungliðar rokkskírteini frá Stelpur rokka! og rokkglaðning á lokatónleikunum.

Verkefnið er í boði fyrir 16 til 18 ára stelpur sem hafa komið í rokkbúðir í Reykjavík, á Akureyri eða í Breiðholti tvisvar sinnum eða oftar. 

Áhugasamar mega gjarnan senda tölvupóst á rokksumarbudir@gmail.com fyrir 10. maí næstkomandi.

Allar nánari upplýsingar má fá hjá Áslaugu Einarsdóttur í síma 6965438 eða með að senda tölvupóst á rokksumarbudir@gmail.com 

Þetta er frábært tækifæri til þess að kynnast Stelpur rokka! starfinu betur, miðla af rokkbúðareynslunni og vera góð rokkfyrirmynd! 

Já, ég hef áhuga á að vera ungliði!