Alþjóðleg samstarfsverkefni Stelpur rokka! 

Stelpur rokka! hafa frá upphafi tekið virkan þátt í því að efla og styrkja rokkbúðanetið á heimsvísu. Við erum hluti af alþjóðlegri hreyfingu rokkbúða sem allar starfa eftir sömu gildum femínisma, félagslegs réttlætis, samhjálpar og samstöðu. Lesa nánar um Rokkbúðabandalagið, regnhlífasamtök rokkbúða út um allan heim. 

Við höfum einnig tekið virkan þátt í Evrópusamstarfi rokkbúða og staðið fyrir stuðningi og tvíhliða samstarfi við rokkbúðir í öðrum löndum. 

Rokkbúðirnar eru jafn margbreytilegar og samfélögin sem þau eru staðsett í.  Það er engin ein rétt leið til að styðja við stelpur í gegnum tónlistarsköpun þar sem staða stelpna og transkrakka er ólík frá einu samfélagi til annars. Það er því engin ein rétt leið til þess að framkvæma rokkbúðir. Stelpur rokka! eru meðvitaðar um að starfshættir okkar á Íslandi henti ekki endilega fyrir rokkbúðir í öðrum löndum og við byggjum okkar samstarf á meðvitund um menningarlegan fjölbreytileika. Við berum virðingu fyrir sérþekkingu samstarfskvenna okkar í öðrum löndum og okkar hlutverk er ekki fyrst og fremst að miðla okkar reynsluheimi heldur að hlusta, læra og styðja.  


Alþjóðlegar rokkbúðir í Berlín og Evrópuráðstefna í Serbíu 2018!

MEME – Music Empowerment Mobility and Exchange er samstarfsverkefni 11 rokkbúðasamtaka víðsvegar um Evrópu, en verkefnið hlaut nýverið styrk frá Erasmus+, Evrópu unga fólksins. Íslensku félagasamtökin Stelpur rokka! leiða verkefnið, sem miðar að valdeflingu ungmenna og aukinni samfélagsþátttöku þeirra í gegnum tónlistarsköpun.

MEME verkefnið gerir yfir 110 ungmennum og sjálfboðaliðum frá 10 löndum kleift að koma saman og læra á hljóðfæri, mynda hljómsveitir, skiptast á reynslu sinni af verkefnastjórnun og skipulagi eða læra um frásögn og miðlun í fjölmiðlum.

Verkefnið er þríþætt og samanstendur af: undirbúningsheimsókn til Berlínar í júní 2018, ungmennaskiptum í formi alþjóðlegra rokkbúða í Berlín í júlí 2018 og ráðstefnu fyrir skipuleggjendur rokkbúða í Belgrad í Serbíu í september 2018.

Verkefnið stendur yfir í 7 mánuði og er, eins og áður sagði, leitt af Stelpur rokka! í samstarfi við gestgjafa rokkbúðanna í Þýskalandi, Ruby Tuesday e.V, og gestgjafa ráðstefnunnar í Serbíu, OPA/Femix. Einnig taka þátt í verkefninu: Fundacja Pozytywnych Zmian frá Póllandi, Girls Rock Dublin frá Írlandi, Girls Rock London frá Bretlandi, Girls Rock! Finland frá Finnlandi, JM / LOUD frá Noregi, Pink Noise frá Austurríki, Popkollo frá Svíþjóð og Stowarzyszenie Kobieca Transsmisja frá Póllandi.

Rétt eins og Stelpur rokka! starfa öll ofantalin samtök í anda rokkbúða-hreyfingarinnar, þar sem stelpur, trans og kynsegin þátttakendur læra á hljóðfæri, stofna hljómsveit, semja lag og spila á tónleikum fyrir vini og vandamenn. Þau eru jafnframt öll meðlimir í regnhlífasamtökum rokkbúða um allan heim,Girls Rock Camp Alliance.

MEME verkefnið hlaut yfir 100.000 evrur í styrk frá Erasmus+ fyrir æskulýðsstarf í Evrópu, en styrkumsóknin hlaut 90 stig af 100 mögulegum. Markmið þessa metnaðarfulla verkefnis er að stuðla að auknu kynjajafnrétti og valdeflingu í krafti tónlistar og sköpunar, þvert á landamæri. Það byggir jafnframt á meðvitund um margþætta mismunun og hefur það markmið að berjast gegn hvers kyns jaðarsetningu á grundvelli fötlunar, uppruna, húðlitar og stéttarstöðu svo eitthvað sé nefnt. Á vegum Stelpur rokka! munu átta ungmenni og þrír leiðbeinendur ferðast til Berlínar í júlí til að taka þátt í alþjóðlegu rokkbúðunum, og um átta leiðbeinendur Stelpur rokka! munu ferðast á ráðstefnuna í Serbíu í september.

Auður Viðarsdóttir frá Stelpur Rokka! og verkefnastýra MEME segir: „Með þessu verkefni erum við að stuðla að listrænum og félagslegum samskiptum yfir landamæri í Evrópu og víðar. Hluti af okkar langtímamarkmiðum er að breyta tónlistarheiminum og samfélaginu öllu með því að hvetja stúlkur, trans og kynsegin fólk til aukinnar þáttöku og áhrifa. Hugmyndin að baki alþjóðlegu rokkbúðunum í Berlín og ráðstefnunni í Belgrad er að gefa þessu markmiði byr undir báða vængi.“

Maebh Murphy frá Ruby Tuesday og verkefnastýra MEME segir:„Við hlökkum til að taka á móti þátttakendum og leiðbeinendum í alþjóðlegu rokkbúðirnar í Berlín í júlí, og til að starfa með félagasamtökum sem eru virk í valdeflingu ungmenna í gegnum tónlist og sköpun. Við vonumst til að valdefla hvert annað, stuðla að nýjum viðhorfum til sköpunarferlisins og möguleika hverrar og einnar manneskju til að hafa áhrif.“

Við hvetjum áhugasama  til að fylgjast með hvernig verkefninu vindur fram á samfélagsmiðlum Stelpur rokka!

 
 

Hægt að fá nánari upplýsingar um verkefnið hjá verkefnastýrunum:

Auður Viðarsdóttir (Stelpur Rokka!,  Ísland)

audurvid@gmail.com

Sími: 00 46 720 147108

Skype: audurvidarsdottir

Maebh Murphy (Ruby Tuesday e.V., Þýskaland)

maebh@rubytuesdaymusic.de

Sími: 00 49 157 39578571

Skype: maebhcheasty

MEME01.jpg

Rokkbúðir í Tógó 

Stelpur rokka! hafa, ásamt Utanríkisráðuneytinu, stutt við framkvæmd rokksumarbúða í Tógó í samstarfi við Mirlindu Kuakuvi verkefnastýru,  tógóískar tónlistarkonur og samtökin Sól í Tógó. Um er að ræða fyrstu rokkbúðirnar í Tógó og mögulega þær fyrstu í Vestur Afríku. Rokkbúðirnar eru haldnar árlega, í ágúst í borginni Kpalimé. 

Stelpur rokka! stóðu fyrir viðamikillri hljóðfærasöfnun árið 2016 til að senda út til rokkbúðanna í Tógó og senda árlega út hljóðfæri til búðanna. Mirlinda opnaði tónlistarmiðstöð í höfuðborginni Lomé árið 2017 og rekur nú tónlistarstarf fyrir stelpur árið um kring. 

Árið 2017 kom Mirlinda, verkefnastýra tógóísku rokkbúðanna til Íslands og starfaði sem sjálfboðaliði í 13 til 16 ára rokkbúðunum í Reykjavík. Stelpur rokka! sendu tvo sjálfboðaliða til Tógó árin 2016 og 2017 til að taka þátt í rokkbúðunum og munu taka á móti tveimur sjálfboðaliðum frá Tógó í rokkbúðirnar í Reykjavík sumarið 2018. 

Frétt Vísis um Hljóðfærasöfnunina 

Samstarfið við rokkbúðirnar í Tógó er einstaklega gefandi og hvetjandi og við höfum lært einstaklega mikið af samstarfskonum okkar í Tógó. 


Rokkbúðir á Grænlandi og í Færeyjum

Í júní 2016 héldu Stelpur rokka! rokkbúðir á Grænlandi og í Færeyjum í samstarfi við grænlenskar og færeyskar tónlistarkonur. Um var að ræða fyrstu rokkbúðirnar í báðum löndunum, en í framhaldi voru færeysku samtökin Gentur rokka! stofnuð og starfa nú árið um kring í Færeyjum. 

Rokkbúðirnar í Grænlandi voru haldnar í Nuuk dagana 14. til 18. júní 2016 í samstarfi við Norðurlandahúsið í Nuuk. 

Rokkbúðirnar í Færeyjum voru haldnar í Þórshöfn dagana 22. til. 26. júní 2016 í samstarfi við Norðulandahúsið í Þórshöfn.

Við höldum áfram góðu samstarfi við Gentur rokka! og buðum m.a tveimur starfskonum samtakanna á ráðstefnu Rokkbúðabandalagsins í Bandaríkjunum árið 2017. 

 Sjá viðtal við Ingibjörgu um rokkbúðirnar í Færeyjum! 


ROKKBÚÐIR GEGN OFBELDI Í PÓLLANDI 

Stelpur rokka! áttu mjög ánægjulegt samstarf við pólsku rokkbúðirnar Karioka Girls Rock Camp Beskidy árið 2016 með samstarfsverkefninu Rokkað gegn ofbeldi. Við héldum gistirokkbúðir fyrir 16 til 20 ára ungmenni á Suðurnesjum sumarið 2016 en þema búðanna var rokkað gegn ofbeldi.  Við buðum upp á nýjar og spennandi vinnusmiðjur og fræddumst saman um samtakamátt gegn ofbeldi & femínískar byltingar síðastliðins árs. Karioka Girls Rock Camp héldu einnig rokkbúðir með þemanu rokkað gegn ofbeldi á sama tíma og lögin sem urðu til í báðum búðum voru gefin út á safnplötu á alþjóðlegum baráttudegi kvenna þann 8. mars 2017. Platan er aðgengileg á soundcloud!  

Gistirokkbúðirnar gegn ofbeldi eru orðnar árlegur liður í starfsemi stelpur rokka! og voru síðast haldnar í Hveragerði í október árið 2017. 

Við höfum einnig staðið fyrir fjársöfnun til styrktar pólsku rokkbúðunum á Karolina Fund og við hlökkum til áframhaldandi samstarfs í framtíðinni.