Af hverju eru rokksumarbúðirnar bara fyrir stelpur, trans krakka & kynsegin einstaklinga?
Enn er mikið verk að vinna til að leiðrétta kynjahalla í íslensku tónlistarlífi. Staðalímyndir í rokk og popp myndböndum og tímaritum sýna konur fyrst og fremst sem óvirk kynferðisleg viðföng hins karllæga augnaráðs en ekki sem skapandi og sjálfstæða gerendur. Hlutfall kvenna, trans fólks og kynsegin einstaklinga á tónlistarhátíðum á borð við Iceland Airwaves, sem skráðra höfunda í STEF, í stjórnum tónlistartengdra stofnanna og fyrirtækja og almennt sem sýnilegra tónlistarmanna á Íslandi, er afar lágt. Stelpur, trans krakkar og kynsegin einstaklingar eru ólíklegri en cis strákar til þess að byrja að semja og spila sína eigin tónlist á unglingsárunum og stofna hljómsveitir. Margir samverkandi samfélagslegir þættir gera það að verkum að stelpur, trans krakkar og kynsegin einstaklingar eru líklegri til að skorta sjálfstraust til að koma fram á sviði, taka sér rými og vera með hávaða. Þau eru líklegri til þess að finnast þau þurfa að kunna að spila óaðfinnanlega á hljóðfæri áður en þau geta farið á svið og tekið sér rými. Þau eru líklegri til að stunda strangara sjálfseftirlit en cis strákar á vissum sviðum. Sjálfseftirlitið hefur hamlandi áhrif á sjálfstjáningu. Stelpur rokka! vilja breyta þessari kynjuðu menningu.
Hugmyndafræði Stelpur rokka! snýst um að skapa öruggt rými þar sem þátttakendum er gefið tækifæri til þess að spegla sig og sína hæfileika í öflugum femínískum fyrirmyndum. Kynjaskiptingin gerir það að verkum að þátttakendur þurfa ekki að óttast að cis strákar geri lítið úr þeim og eyða ekki orku í að keppa við þá um rými eða athygli. Þátttakendur fá þann stuðning sem þeir þurfa og geta viðrað skoðanir sínar og gert mistök án þess að eiga það á hættu að vera dæmdar á forsendu kyngervis síns. Það er því miður of oft þannig að í blönduðum hópum þar sem fer fram listsköpun fá stelpur, trans krakkar og kynsegin einstaklingar ekki nægilegt rými til að þora að gefa af sér og vera berskjaldaðar fyrir framan aðra. Við erum meðvitaðar um þetta og í rokkbúðunum er skapað rými þar sem þátttakendur fá næði til þess að einbeita sér að því að rækta hæfileika sína, og til að gera eitthvað sem þeir eru ekki vanir að gera; að spila á hljóðfæri og vera í hljómsveit, öskra, gera mistök, ögra og pönkast.
Af hverju þarf ég að velja hvað ég borga í þátttökugjald?
Við vitum að ekki stendur öllum ungmennum á Íslandi jafnt til boða að sækja rokkbúðirnar sökum fjárhags, félagslegrar stöðu eða annarra breyta. Þess vegna leggja Stelpur rokka! sérstakan metnað í að vera eitt af fáum verkefnum á Íslandi sem vísar engum þátttakanda frá vegna fjárskorts. Tæpur þriðjungur þeirra sem sækja búðirnar þiggja niðurgreiðslu að hluta eða að fullu. Við leggjum áherslu á að frí eða niðurgreidd pláss fari til þeirra sem mest þurfa á því að halda og eru í minnihluta þátttakenda í rokkbúðunum. Efnaminni þátttakendur LGBT ungmenni og þátttakendur með annað móðurmál en íslensku hafa forgang í frí pláss en hingað til höfum við getað boðið öllum sem á þurfa að halda frí pláss.
Af hverju eru bara konur, trans fólk og kynsegin einstaklingar sem kenna á hljóðfæri og stýra hljómsveitum í búðunum?
Mikilvægur hluti af rokkbúðarstarfinu er að þátttakendur vinni náið með fyrirmyndum sem spegla eigið kyngervi. Það er nauðsynlegt fyrir ungmennin að hafa góðan aðgang að sterkum og fjölbreyttum fyrirmyndum til að spegla sig og sína hæfileika í. Við erum meðvitaðar um að skortur á kvenkyns, trans og kynsegin fyrirmyndum, bæði á rokksviðinu og bak við tjöldin, er ein ástæða þess að stelpur, trans & kynsegin krakkar hafa minna sjálfstraust í tónlistarstarfi. Okkur finnst mikilvægt að sýna þátttakendum að konur, trans og kynsegin fólk ganga í öll hlutverk og geta gert allt, hvort sem það er að kenna og spila á trommur, tengja snúrur, lyfta mögnurum, taka upp tónleika, eða annað sem þær eru vanari að sjá cis karla gera. Við erum líka með vinnusmiðjur þar sem við fjöllum markvisst um femínískar fyrirmyndir í tónlist. Verkefni okkar í rokkbúðunum snýst meðal annars um að gera konur, trans og kynseging fólk í tónlist sýnilegri á allan hátt, svo að þátttakendum finnist sjálfum jafn sjálfsagt að sjá konur, trans og kynsegin einstaklinga á sviði og cis stráka, og að þeim finnist þá jafn sjálfsagt að þau fari á svið, rétt eins og cis strákar.
Rokkbúðastarfið er ekki síður valdeflandi fyrir þau sem skipa sjálfboðaliðahópinn. Við hvetjum sjálfboðaliðana okkar til að ögra sjálfum sér og víkka út þægindarammann. Sjálfboðaliðarnir tengjast sterkum böndum sín á milli, öðlast mikilvæga reynslu í kennslu, miðlun og sköpun tónlistar og fá innsýn inn í rekstur tónlistarfrumkvöðlaverkefnis sem byggir á jafnréttisgildum. Sú þjálfun og reynsla sem þau fá hjá Stelpur rokka! hefur opnað mörgum sjálfboðaliðum dyr inn í önnur verkefni, þar sem reynsla þeirra hjá Stelpur rokka! er mikils metin.
Þarf þátttakandi í rokkbúðunum að hafa reynslu af hljóðfæraleik?
Engin hljóðfærakunnátta eða reynsla af tónlistarstarfi er nauðsynleg til að skrá sig í rokkbúðirnar. Við bjóðum upp á byrjendatíma á öll hljóðfæri og framhaldstíma þar sem það á við.
Er gott aðgengi fyrir þáttakendur með hreyfihömlun í rokkbúðunum?
Það er gott aðgengi fyrir þátttakendur með hreyfihömlun í Tónskóla Sigursveins í Hraunbergi 2, þar sem rokkbúðirnar í Reykjavík eru haldnar. Það er einnig gott aðgengi í rokkbúðunum á Akureyri og í rokksmiðjunum í Tónabæ.
Fæ ég Þátttökugjöldin endurgreidd ef ég þarf að hætta við þátttöku í rokkbúðunum?
Við endurgreiðum að öllu leyti þátttökugjöld í rokkbúðunum svo fremi sem okkur tekst að láta plássið ganga til annars þátttakanda áður en rokkbúðirnar hefjast.
Ef ekki tekst að finna þátttakanda í plássið þá er helmingur gjaldsins endurgreiddur ef látið er vita um forföll 5 dögum fyrir búðirnar (ef búðir byrja á mánudegi þarf að láta vita í síðasta lagi á miðvikudegi til að geta búist við helmings- eða fullri endurgreiðslu). Ef látið er vita innan 5 daga fyrir búðir og ekki tekst að finna annan þátttakanda er ekki unnt að endurgreiða nema við mjög sérstakar aðstæður s.s alvarleg veikindi í fjölskyldu eða annað álíka.
Þarf ég að koma með eigið hljóðfæri í rokkbúðirnar?
Við útvegum hljóðfæri handa öllum þátttakendum en öllum er frjálst að koma með sín eigin hljóðfæri ef þeir kjósa.
Ég fíla ekki rokktónlist. Eru rokkbúðirnar fyrir mig?
Í rokkbúðunum spilum við og semjum fjölbreytta tónlist, þó að við heitum Stelpur rokka! Hljómsveitirnar hjá okkur semja allskonar tónlist, popp, folk, rapp, pönk, raftónlist og allt mögulegt. Við gerum okkar besta til að raða þátttakendum í hljómsveitir eftir tónlistarsmekk.
Ég kemst ekki alla dagana sem rokkbúðirnar eru. Get ég samt verið með?
Við ætlumst til þess að skráðir þátttakendur mæti alla dagana nema eitthvað ófyrirséð komi upp á. Það má þó hafa samband við okkur fyrir skráningu til að athuga hvort að forföll í hálfan dag gangi upp t.d. Ef þátttakandi sér fram á að komast ekki á lokatónleikana er ekki hægt að skrá þátttakanda í rokkbúðirnar.
Er stuðningur til staðar fyrir þátttakendur með sérþarfir?
Við reynum okkar besta við að koma til móts við sérþarfir allra þátttakenda. Við viljum mæta hverjum þátttakenda þar sem hann er staddur. Við leggjum áherslu á fjölbreytilegar kennsluaðferðir, til að geta komið sem best til móts við sem flesta. Í hverjum búðum er starfandi ófaglærður rokkráðgjafi. Hlutverk hans er að veita þátttakendum með sérþarfir eða þátttakendum sem glíma við andlega og líkamlega vanlíðan aukinn stuðning. Við leggjum áherslu á opin samskipti við foreldra þátttakenda og óskum eftir öllum þeim upplýsingum sem geta hjálpað okkur við að styðja sem best við hvern þátttakanda. Við leggjum áherslu á gott aðgengi fyrir þátttakendur með hreyfihömlun.