Yfirlýsing frá Stelpur rokka!

Yfirlýsing frá Stelpur rokka!

Sjálfboðaliðasamtökin Stelpur rokka! krefjast þess að fyrirhuguð endursending Útlendingarstofnunar á afganskri fjölskyldu til Þýskalands verði stöðvuð og fjölskyldunni veitt hæli af mannúðarástæðum. Ljóst er að fjölskyldan hefur orðið fyrir gífurlegu ofbeldi í heimalandi sínu og líf þeirra sé í hættu þar. Stjórnvöld í Þýskalandi eru aðilar að nýrri reglugerð sem stóreykur líkurnar á að afganskir flóttamenn verði sendir aftur þaðan til Afganistan. Með því að senda fjölskylduna til Þýskalands eru íslensk yfirvöld að senda fjölskylduna í háska. Velferð barnanna veltur á því að þau geti búið áfram á Íslandi. Börnin hafa þegar orðið fyrir ólýsanlegu ofbeldi í heimalandi sínu sem orsakaði varanlegan líkamlegan og andlegan skaða. Nánar er fjallað um mál fjölskyldunnar í eftirfarandi frétt Stundarinnar

Samtökin lýsa einnig yfir fullum stuðningi við fyrirhuguð mótmæli flóttamanna. Í dag, laugardaginn 3. desember gengur flóttafólk að Alþingi og krefst þess að:

1) Allar hælisumsóknir verði teknar til efnismeðferðar á Íslandi
2) Útlendingastofnun verði endanlega lögð niður og allar ábyrgðir hennar fluttar á aðrar stofnanir.
3) Réttindi umsækjenda til vinnu og sjálfsbjargar sé jafn rétti Íslendinga, svo þeir geti staðið undir sér og samfélaginu ásamt öðrum.

Þessar kröfur eru einnig okkar kröfur. Það er löngu orðið ljóst að Útlendingastofnun starfar ekki eftir grundvallargildum mannúðar, samhjálpar og samstöðu og því þarf að leggja stofnunina niður.

Við hvetjum að lokum alla til þess að sýna stuðning sinn við kröfur flóttamanna og ganga með þeim frá Hlemmi að Austurvelli kl 13:30.

Sjálfboðaliðar Stelpur rokka!

Mótmælaviðburðurinn á facebook