Nú fer að líða að lokum MEME: Music Empowerment Mobility and Exchange, sjö mánaða löngu alþjóðlegu verkefni sem Stelpur rokka! áttu stóran þátt í að móta og leiða á árinu.
Af því tilefni langar okkur að deila með ykkur þessari ótrúlegu vegferð í gegnum frásagnir, myndir, myndband og auðvitað tónlist! Njótið :)
Það er erfitt að lýsa svona reynslu í orðum eingöngu.
Við kynnum því með stolti hljóðupptökur af öllum lögunum sem samin voru í rokkbúðunum í Berlín, ásamt stuttu myndbandi frá lokatónleikunum (textað á nokkrum tungumálum):
UM VERKEFNIÐ
Verkefnið hlaut styrk frá Erasmus+, samstarfáætlun ESB, og er samstarf 11 rokkbúðasamtaka frá 10 löndum víðs vegar um Evrópu. Samtökin eru ólík en starfa öll í anda rokkbúðahefðarinnar og miða að valdeflingu ungmenna sem upplifa mismunun á grundvelli kyns eða kyngervis. Flest leggja jafnframt áherslu á að ná til ungmenna sem búa við færri tækifæri af ýmsum ástæðum. Markmið verkefnisins var að gefa ungmennum og skipuleggjendum samtakanna tækifæri til að skapa alþjóðlegt rokkbúðarými þar sem þau gætu lært hvert af öðru, stutt hvert annað og tekið þátt í að byggja upp öflugt samstarfsnet evrópskra rokkbúða.
Yfir 60 ungmenni og meira en 50 leiðbeinendur og skipuleggjendur tóku þátt í annars vegar alþjóðlegum rokkbúðum í Berlín í júlí, og hins vegar rokkbúðaráðstefnu fyrir skipuleggjendur í Belgrad í september.
Báðir viðburðir, dagskrá þeirra, innihald og öll framkvæmd var unnið í láréttu samstarfi allra þátttökusamtakanna. Hver og ein samtök lögðu fram einstaka reynslu, þekkingu, sjálfboðaliða og ungmenni til að verkefnið gæti orðið að veruleika.
ROKKBÚÐIRNAR Í BERLÍN
Í rokkbúðunum urðu til 7 hljómsveitir skipaðar um 40 þátttakendum. Aðrir þátttakendur mynduðu fjölmiðlateymi sem sá um að skrásetja búðirnar gegnum myndir, hljóð og vídjó, og skipulagsteymi sem sá um framkvæmd lokatónleikanna auk tónleika með hljómsveitum frá Berlín sem haldnir voru í miðri viku.
Bætið við það ótal vinnusmiðjum, ranghölum tónlistarakademíunnar í Berlín, gistiþorpi úti í skógi, morgunhringjum, hengirúmum, kvölddagskrá, eldhúsvöktum, listrænni ígrundun, 28°á celsíus, 3000 metrum af snúrum, risageitungum, karókí, dansíókí, u.þ.b. 239 excel skjölum, einum snák og lengsta “blóðmána” aldarinnar. Og þá höfum við MEME Berlínarrokkbúðirnar 2018 í stórum dráttum.
RÁÐSTEFNAN Í BELGRAD
Á ráðstefnunni í Belgrad fóru fram yfir 20 fjölbreyttar vinnusmiðjur, “skill-share” og panelumræður um allt frá fjáröflun og græjuskipulagi, yfir í hvernig við getum bætt aðgengi minnihlutahópa að rokkbúðahreyfingunni og eflt virka þátttöku ungs fólks. Auk þess fóru fram vinnufundir, stefnumótun og glæst framtíðarplön (MEME Vol. 2 hér komum við!). Að ógleymdri bátsferð um Dóná, metaltónleikum og jam sessjóni á Laugardagskvöldinu, og þremur ísbúðarferðum í bestu ísbúð í Serbíu.
REYNSLUNNI RÍKARI
Þetta er búið að vera heilmikil vegferð. Sviti og tár. Brött lærdómskúrfa með ýmsum misháum hindrunum í veginum. Í sönnum rokkbúðaanda tókst okkur hins vegar í sameiningu að yfirstíga þær allar. Skapa fyrstu alþjóðlegu hundrað manna (!) rokkbúðirnar sem haldnar hafa verið. Hittast svo á ráðstefnu til að styrkja enn betur samstarfsböndin, deila reynslu, víkka út samstarfsnetið og skipuleggja framtíðarverkefni (og heimsyfirráð - að sjálfsögðu).
Verkefnið hefur eflt þátttökusamtökin á margvíslegan hátt; aukið alþjóðlega meðvitund þeirra og fært þeim nýjar og ferskar hugmyndir til að nýta í starfi sínu og nærsamfélagi. Ótal ungmenni sneru til síns heima með magnaða rokkbúðareynslu í farteskinu og aukna trú á sjálf sig og hvert annað. Sjálfboðaliðar og skipuleggjendur fundu á eigin skinni að ötult og óeigingjarnt starf þeirra skiptir raunverulega sköpum. Í verkefninu tóku líka þátt einstaklingar frá öðrum löndum sem hafa hug á að stofna rokkbúðir, og sneru heim tvíefld, vitandi af þessu vaxandi stuðningsneti rokkbúðasamtaka.
Það verðmætasta sem verkefnið hefur skapað er þó án efa öll hin ómetanlegu vináttubönd, þvert á landamæri. Sú tilfinning að við stöndum ekki í þessu ein, heldur saman. Og saman getum við látið allra fjarstæðustu (og bestu) drauma okkar verða að veruleika!
Rokkbúða- og byltingarkveðjur,
Auður Viðarsdóttir, verkefnastýra
Ásamt Stelpur rokka! tóku eftirfarandi samtök þátt í verkefninu (formlega og óformlega):
Ruby Tuesday e.V. Þýskalandi (gestgjafar rokkbúðanna í Berlín)
OPA / Femix Serbíu (gestgjafar ráðstefnunnar í Belgrad)
Girls Rock Dublin Írlandi
Girls Rock London Bretlandi
Fundacja Pozytywnich Zmian Póllandi
Pink Noise Austurríki
Stowarzyszenie Kobieca Transsmisja Póllandi
Girls Rock! Finland Finnlandi
Popkollo Svíþjóð
LOUD! Jentenes bandleir Noregi
Rock Donna Finnlandi
Gentur rokka Færeyjum
Og hér má finna sameiginlega heimasíðu Evrópunets rokkbúðabandalagsins (Girls Rock Camp Alliance)