Við kynnum spennt: MEME Vol. 2 og alþjóðlegar rokkbúðir Á ÍSLANDI!

meme 2019 final-01-01.png

Í ár munu Stelpur rokka! ráðast í sitt allra stærsta verkefni til þessa: að halda yfir 110 manna alþjóðlegar ungmennarokkbúðir á Hvanneyri í ágúst!

Rokkbúðirnar eru hluti af verkefninu MEME Vol. 2, en MEME stendur fyrir: “Music Empowerment Mobility and Exchange”. Það er Evrópskt samstarfsverkefni sem miðar að valdeflingu ungmenna í gegnum tónlistarsköpun og samvinnu. Verkefnið er styrkt af Erasmus+, samstarfsáætlun ESB.

Við stöndum þó alls ekki ein í þessum stórræðum, því að verkefninu standa alls 12 rokkbúðasamtök víðs vegar að í Evrópu.

MEME Vol. 2 er framhald vel heppnaðs MEME verkefnis síðasta árs, sem fól í sér alþjóðlegar rokkbúðir í Berlín í júlí og ráðstefnu fyrir skipuleggjendur rokkbúða í Belgrad í semptember.

MEME Vol. 2 rokkbúðirnar á Íslandi munu standa yfir í viku, og gera um 60 ungmennum á aldrinum 16-30 ára, ásamt yfir 30 leiðbeinendum og sjálfboðaliðum frá a.m.k. 10 löndum, kleift að koma saman, læra á hljóðfæri, mynda hljómsveitir og semja lög, prófa sig áfram á sviði kvikmyndagerðar og fjölmiðlunar, deila reynslu sinni og læra um verkefnastjórnun og hvernig hægt er að byggja upp alþjóðlega hreyfingu.

Meðan á búðunum stendur munum við bjóða samstarfsaðilum, fjölmiðlum og öðrum áhugasömum á opið hús til að kynna sér verkefnið og það sem það stendur fyrir.

Við bjóðum jafnframt öll hjartanlega velkomin á lokatónleika búðanna, laugardaginn 10. ágúst. Nánari upplýsingar um stað og tíma væntanlegar, svo fylgist með hér á síðunni, samfélagsmiðlum Stelpur rokka!, eða:

MEME á Facebook

MEME á Instagram

MEME á Youtube

Stelpur rokka! eru í skýjunum yfir að fá að halda MEME Vol. 2 ungmennarokkbúðirnar á Íslandi. Þetta er risastórt verkefni, en við vitum það núna fyrir víst að þetta samstarfsnet evrópskra rokkbúðaskipuleggjenda og ungmenna getur áorkað hverju sem er. Við hlökkum líka til að gefa nærsamfélagi okkar innsýn í verkefnið og bjóða innlendum samstarfsaðilum okkar og velgjörðarfólki að taka þátt og styðja okkur. Síðast en ekki síst getum við ekki beðið eftir að bjóða hingað yfir 100 manns til að vera með læti!
— Áslaug Einarsdóttir, framkvæmdastýra Stelpur rokka! og verkefnastýra MEME Vol. 2
MEME Vol. 2 mun byggja á dýrmætri reynslu frá verkefni síðasta árs. Við ætlum að halda áfram að þróa leiðir til að skipuleggja svona stórt alþjóðlegt verkefni í láréttu samstarfi, þar sem bæði leiðbeinendur og ungt fólk frá öllum þátttökusamtökum tekur virkan þátt í skipulagi og framkvæmd búðanna. Í ár ætlum við að leggja sérstaka áherslu á að MEME verði í nánustu framtíð leitt áfram af ungmennunum sjálfum. Um leið viljum við víkka út og  styrkja stoðir evrópska samstarfsnetsins okkar, þannig að það þjóni vel og styðji við ungmenni jafnt sem skipuleggjendur sem eru virk í rokkbúðastarfi í heimalandi sínu.
— Auður Viðarsdóttir, verkefnastýra hjá Stelpur Rokka! og MEME Vol. 2
Frá lokatónleikum fyrstu MEME rokkbúðanna í Berlín í júlí 2019

Frá lokatónleikum fyrstu MEME rokkbúðanna í Berlín í júlí 2019