Vel heppnuð Evrópuráðstefna að baki

Stelpur rokka! eiga í fjölbreyttu og skemmtilegu samstarfi við aðrar rokkbúðir víða um heim. Við erum aðilar að rokkbúðabandalaginu (Girls Rock Camp Alliance) og þar innan erum við hluti af mjög virku og vaxandi Evrópuneti. Í september síðastliðnum var haldin Evrópuráðstefna rokkbúðabandalagsins í Vaasa í Finnlandi. Þar voru saman komnir fulltrúar frá 10 rokkbúðum víðsvegar um Evrópu. Stelpur rokka! tóku þátt í skipulagningu og framkvæmd ráðstefnunnar og sendum við sex fulltrúa til Finnlands. Dagskrá ráðstefnunnar var mjög fjölbreytt. Í boði voru áhugaverðar vinnusmiðjur um jafnréttisstarf innan búðanna, um innra skipulag og lýðræði, kennslufræði og skapandi dagskrárgerð svo eitthvað sé nefnt. Lagt var á ráðin um ný fjölþjóðleg samstarfsverkefni og aukinn stuðning við nýjar rokkbúðir í Evrópu.

 

Stelpur rokka! munu taka virkan þátt í uppbyggingu Evrópusamstarfsnetsins næstu árin, enda er það ómetanlegt fyrir starfið að hafa vettvang til að skiptast á góðum hugmyndum, skipuleggja sjálfboðaliðaheimsóknir og taka þátt í  spennandi samstarfsverkefnum. Við þökkum finnsku rokkbúðunum Rock Donna! og Girls Rock! Finland kærlega fyrir frábæra ráðstefnu! 

Ráðstefnuhópurinn í Vaasa