Í fyrstu vikunni í nóvember, Airwaves vikunni, ætla Stelpur rokka!, með stuðningi frá Exton hljómtækjaleigu og Kítón, félagi kvenna í tónlist á Íslandi, að bjóða upp á örnámskeið í hljóðtækni.
Námskeiðið fer fram þriðjudaginn 1. nóvember frá kl. 17-22 í húsnæði Exton, Vesturvör 30c í Kópavogi. Það er opið konum, trans fólki og kynsegin einstaklingum á öllum aldri.
Örnámskeiðið hentar vel fyrir byrjendur í hljóðtækni, og hvort sem er tónlistarfólki eða fólki sem hefur áhuga á hljóði, tækni og tónlist. Farið verður yfir grunnatriði þess að stilla upp og fá gott sánd fyrir tónleika, hvað allar snúrur og græjur heita, hvernig mixer virkar og hvernig hljóðprufa (sándtékk) fer fram, svo eitthvað sé nefnt!
Umsjónarkona námskeiðisins, Julie, kom hingað í sumar frá Noregi í gegnum sjálfboðaliðaskiptiprógramm og kemur nú aftur til að halda þetta námskeið, en hún er tónlistarkona og hefur lengi starfað með norsku rokkbúðunum LOUD! Jentenes Bandleir.
Það er tilvalið fyrir þátttakendur námskeiðsins að mæta líka á Iceland Airwaves off venue dagskrá Stelpur rokka! á Loft Hostel daginn eftir, miðvikudaginn 2. nóvember, þar sem Julie mun einmitt stjórna hljóðinu. Sex frábær bönd munu þar koma fram, innlend sem erlend.
Við lofum afar fræðandi en umfram allt skemmtilegu kvöldi í Kópavoginum, og þrusustuði á Loft Hostel daginn eftir!
Skráning hafin hér - takmarkaður fjöldi plássa!