Frábær Rokkhátíð æskunnar að baki!

Við þökkum fyrir frábæra stemningu og gott stuð á Rokkhátíð æskunnar sem var haldin þann 28. ágúst síðastliðinn á Kex hostel.

Heimilislegir sunnudagar og Kex hostel stóðu fyrir hátíðinni í samvinnu við Stelpur rokka! og dagskráin var stútfull af skemmtilegum viðburðum, smiðjum og tónleikum fyrir krakka á öllum aldri. Stelpur rokka! voru með smiðjur í hljóðnemasmíði og barmmerkjagerð sem sló rækilega í gegn. Hljómsveitirnar sem komu fram tengdust margar með einum eða öðrum hætti starfi Stelpur rokka! Hasar Basar og Hush Hush komu fram á hátíðinni en þær voru myndaðar í sumar í 13 til 16 ára rokkbúðum Stelpur rokka! Hljómsveitin Kyrrð var mynduð í fyrra í 13 til 16 ára rokkbúðunum og meðlimir RuGl eru einnig fyrrum þátttakendur rokkbúða. Við erum ótrúlega stoltar af þessum nýju böndum og hlökkum til að sjá þær spila sem víðast.

Við þökkum Heimilislegum sunnudögum og Kex hostel kærlega fyrir samvinnuna. Áfram krakkarokkhátíðir og tónlistarsköpun fyrir alla aldurshópa!