Sæll Frosti,
Sjálfboðaliðahópur samtakanna Stelpur rokka! sendir þér vinsamleg tilmæli í tilefni af ummælum þínum um stöðu og upplifun tónlistarkvenna af íslensku tónlistarlífi í útvarpsþættinum þínum Harmageddon föstudaginn 3. mars síðastliðinn. Tilmælin eru þessi:
* Ekki tala fyrir hönd tónlistarkvenna og geta þér til um þeirra persónulegu upplifun af íslensku tónlistarlífi.
* Hlustaðu á tónlistarkonur segja frá sinni eigin reynslu, taktu mark á þeim og reyndu að setja sjálfan þig í þeirra spor.
Þú gætir byrjað á því að hlusta á það sem Björk hefur að segja um sína persónulegu upplifun af tónlistarheiminum. Þér er tíðrætt um hana og þú segir að konur eigi að hætta að líta á sig sem „fórnarlömb“ og að kynjahalli í íslensku tónlistarlífi sé „kjaftæði‘ því að kona, Björk, sé frægasti listamaður Íslands. Við hvetjum þig til að lesa viðtal hennar við Pitchfork um árið, og íhuga vandlega upplifun hennar á kynjahallanum í tónlistarsenunni:
„Mig langar til að styðja ungar stelpur á tvítugsaldri og segja þeim: Þú ert ekki að ímynda þér þetta. Þetta er erfitt. Allt sem að strákar segja, þarft þú að segja fimm sinnum. Ég lærði á harkalegan hátt, eftir að hafa verið eina stelpan í hljómsveitunum í 10 ár, að ef hugmyndir mínar ættu að fá að heyrast þyrfti ég að láta sem svo að þeir, strákarnir, hefðu átt hugmyndirnar“.
Björk hefur líka talað opinberlega um tilhneigingu karla til að eigna öðrum körlum sem vinna með henni mestan heiðurinn af hennar eigin verkum. Þessi tilhneiging er falskt og úrelt karlrembustef sem hefur verið notað markvisst í gegnum aldirnar til að draga úr afrekum tónlistarkvenna. Stef sem endurómar í ummælum þínum um popplag ársins.
Ef þú ert ekki tilbúinn til að viðurkenna upplifun Bjarkar, alþjóðlegrar stjörnu sem hefur starfað í yfir 30 ár, og ætlar að halda því til streitu að þú vitir betur en hún um hennar eigin reynslu og um upplifanir fjölda annarra íslenskra tónlistarkvenna, þá erum við tilbúin til að veita þér hrokaverðlaun Stelpur rokka! Þau verða afhent þér á 5 ára afmælishátíðinni okkar þann 22. apríl næstkomandi á Kex hostel.
Með verðlaununum viljum við þakka þér fyrir að gefa okkur áminningu um að starfið okkar sé enn þarft og mikilvægt. Það mætti ætla að nú, þegar ungar stelpur hafa aldrei tekið virkari þátt í Músíktilraunum, væri ekki lengur þörf fyrir starfsemi sem hvetur sérstaklega stelpur, konur, trans og kynsegin einstaklinga til að spila og semja tónlist. En sú er greinilega ekki raunin, og við munum ekki sitja hjá á meðan tónlistarkonur, mikilvægar fyrirmyndir þátttakenda í Stelpur rokka! eru rakkaðar niður. Að heyra svona óupplýst, illa ígrunduð og beinlínis skaðleg viðhorf hvetur okkur til að halda okkar sjálfboðaliðastarfi áfram, tvíefldar.
Við hlökkum til að sjá þig 22. apríl á Kex hostel.
Með kveðju,
Rétttrúnaðarriddaraliðið & PC kórinn Stelpur rokka!
P.S. Þú mátt endilega senda frípassana sem þú segir að konur í tónlist á Íslandi fái á skrifstofu Stelpur rokka! í Tónlistarklasanum við Hlemm.
P.P.S. Einn efnilegasti dauðarokkstrommari Íslands er 15 ára stelpa sem hefur komið tvisvar í rokkbúðirnar okkar. Skammastu þín fyrir að gera lítið úr hennar hæfileikum.