Við viljum sjá þig og hljómsveitina þína á sviðinu á afmælishátíðinni okkar þann 22. apríl!
Skráðu þig og/eða hljómsveitina þína í rokkrúllettu. Rokkrúllettan er hljómsveitaáskorun, en hver hljómsveit hefur 5 vikur til að æfa 2 til 3 lög til að flytja á Rokkrúllettutónleikum á afmælishátíð Stelpur rokka!, á Kex hosteli laugardaginn 22. apríl.
Ekki í hljómsveit? Ekkert mál! Á rokkrúllettukvöldinu ætlum við að mynda nýjar hljómsveitir sem munu æfa saman í 5 vikur. Innifalið í skráningu er rokkrúllettukvöld, hljómsveitaæfingaaðstaða, græjulán, hljómsveitastuðningur og tónleikar á afmælishátíðinni.
Ertu í hljómsveit en vantar græjur og æfingahúsnæði? Ekkert mál! Innifalið í skráningu í rokkrúllettu er rokkrúllettukvöld, hljómsveitaæfingaaðstaða, græjulán, hljómsveitastuðningur og tónleikar á afmælishátíðinni.
Einstaklingsskráningin í rokkrúlletuna er opin fyrir allar konur, trans og kynsegin einstaklinga, 15 ára og eldri. Hljómsveitaskráning í rokkrúllettu er opin öllum hljómsveitum svo fremi sem allir þátttakendur séu orðnir 15 ára og konur, trans, eða kynsegin einstaklingar skipi helming hljómsveitarinnar.
Engin tónlistarreynsla er nauðsynleg til að taka þátt! Reyndir sjálfboðaliðar frá Stelpur rokka! munu leiðbeina hljómsveitum eftir þörfum. Rokkrúllettan snýst um að taka áskorun, vinna saman í styðjandi umhverfi, losa um sköpunarkraftinn og stíga upp á svið!