MEME – Music Empowerment Mobility and Exchange er samstarfsverkefni 11 rokkbúðasamtaka víðsvegar um Evrópu, en verkefnið hlaut nýverið styrk frá Erasmus+, Evrópu unga fólksins. Stelpur rokka! leiða verkefnið, sem miðar að valdeflingu ungmenna og aukinni samfélagsþátttöku þeirra í gegnum tónlistarsköpun.
MEME verkefnið gerir yfir 110 ungmennum og sjálfboðaliðum frá 10 löndum kleift að koma saman og læra á hljóðfæri, mynda hljómsveitir, skiptast á reynslu sinni af verkefnastjórnun og skipulagi eða læra um frásögn og miðlun í fjölmiðlum.
Verkefnið er þríþætt og samanstendur af: undirbúningsheimsókn til Berlínar í júní 2018, ungmennaskiptum í formi alþjóðlegra rokkbúða í Berlín í júlí 2018 og ráðstefnu fyrir skipuleggjendur rokkbúða í Belgrad í Serbíu í september 2018.
Markmið þessa metnaðarfulla verkefnis er að stuðla að auknu kynjajafnrétti og valdeflingu í krafti tónlistar og sköpunar, þvert á landamæri. Það byggir jafnframt á meðvitund um margþætta mismunun og hefur það markmið að berjast gegn hvers kyns jaðarsetningu á grundvelli fötlunar, uppruna, húðlitar og stéttarstöðu svo eitthvað sé nefnt. Á vegum Stelpur rokka! munu átta ungmenni og þrír leiðbeinendur ferðast til Berlínar í júlí til að taka þátt í alþjóðlegu rokkbúðunum, og um átta leiðbeinendur Stelpur rokka! munu ferðast á ráðstefnuna í Serbíu í september.
Frekari upplýsingar um MEME verkefnið má nálgast hér. Við hvetjum áhugasama einnig til að fylgjast með hvernig verkefninu vindur fram á samfélagsmiðlum Stelpur rokka!