Rokkbúðum ágústmánaðar frestað til haustsins

Þetta er búið að vera um margt óvenjulegt sumar hjá okkur öllum. Við þökkum kærlega fyrir frábæra rokkorku og gleði í fullorðinsrokkbúðunum okkar og 10 til 12 ára rokkbúðunum okkar í júlí. Við þurftum því miður að fresta síðari 10 til 12 ára rokkbúðunum okkar og 13 til 16 ára rokkbúðunum okkar í Reykjavík vegna Covid aðstæðna en við höfum nú staðfest nýjar dagsetningar fyrir rokkbúðirnar í haust. Báðar rokkbúðirnar verða haldnar í Tónskóla Sigursveins, Hraunbergi 2 í Breiðholti en lokatónleikarnir fara fram í Völvufelli 17, nýrri tónlistarmiðstöð Stelpur rokka!

Við munum halda 4 daga rokkbúðir fyrir 10 til 12 ára í vetrarfríi grunnskólanna, dagana 22. október til 25. október. 20 pláss eru í boði og hægt er að skrá þátttakendur hér. Við bjóðum eins og fyrr upp á frí og niðurgreidd pláss í búðirnar fyrir þau sem á því þurfa að halda.

13 til 16 ára rokkbúðirnar okkar verða með breyttu sniði, en um verður að ræða 4 daga rokkbúðir sem fara fram tvær helgar í október, dagana 10. og 11. október og 17. og 18. október. 20 pláss eru í boði í þessar rokkbúðir og hægt er að skrá þátttakendur hér.

Við munum einnig opinbera fjölbreytta vetrardagskrá á næstu dögum, en við munum bjóða upp á 12 vikna hljómsveitanámskeiðið okkar sívinsæla, Rokkrúllettuna, einkatíma á hljóðfæri, spennandi rokksmiðjur og reglulega föstudagstónleika. Fylgist vel með okkur áfram á næstu dögum!