Yfirlýsing frá Stelpur rokka! vegna meðferðar íslenskra yfirvalda á tveimur ungmennum og móður þeirra

Stelpur rokka! mótmæla harðlega ákvörðun Útlendingastofnunar um að taka hælisumsókn móður frá Kólumbíu og tveggja ungra dætra hennar, 10 ára og 18 ára, ekki til málsmeðferðar og neita þeim um hæli. Fjallað var um mál mæðgnanna í fréttum mbl.is, þann 21. febrúar 2016.

Mæðgurnar, sem kjósa að njóta nafnleyndar, hafa verið á flótta í 15 ár og hafa loks fundið frið og stuðning á Íslandi. Þær hafa verið búsettar hér í eitt og hálft ár og vilja hvergi annars staðar búa. Fjölskyldan flúði heimaland sitt, Kólumbíu vegna ofbeldishótana glæpasamtaka og settust að á Spáni. Fjölskyldan neyddist þó til að yfirgefa heimili sitt á Spáni vegna síendurtekinna hótana ofbeldismanna sem tengdust kólumbísku glæpasamtökunum. Á Íslandi upplifa þær hins vegar í fyrsta skipti öryggi og þær hafa fest rætur hér. Stelpurnar, sem eru á táningsaldri, hafa eignast vini, þeim líður vel í skólanum og á Íslandi hafa þær tækifæri til þess að rækta hæfileika sína og áhugamál án þess að óttast að þær verði fyrir barðinu á ofbeldismönnum.

Útlendingastofnun hefur hinsvegar neitað að taka umsókn þeirra um stöðu sem pólitískir flóttamenn til málsmeðferðar og þær eiga yfir höfði sér brottflutning til Spánar, en þar hefur fjölskyldunni ítrekað verið hótað ofbeldi. Lögmaður fjölskyldunnar hefur kært meðferðina til dómstóla og óskað eftir að réttaráhrifum ákvörðunar verði frestað á meðan þau leita réttar síns. Stelpur rokka! telja ómannúðlegt að frávísa hælisumsóknum eftir að hælisumsækjendur hafa beðið eftir úrskurði í sínum málum í allt að tvö ár. Við förum fram á að mæðgurnar verði ekki sendar aftur til Spánar þar sem ljóst er að þær þurfa að búa við viðvarandi öryggisleysi og lifa í stöðugum ótta sem mun verulega takmarka heilsu og hamingju ungmennanna.

Draumur þessarar fjölskyldu er hógvær og að engu ólíkur draumum allra annarra fjölskyldna, að mega sameinast og búa sér til innihaldsríkt líf á öruggum stað þar sem börn fá tækifæri til að þroskast og rækta sjálf sig, áhugamál, ástríður og hæfileika.

Stelpur rokka! styðja skilyrðislaust við rétt fólks sem býr við ógn og óöryggi í sínu heimalandi að leita sér betra lífs annarsstaðar. Við krefjumst þess að Útlendingastofnun taki hælisumsókn fjölskyldunnar til málsmeðferðar og veiti þeim hæli. Með því verða dætrunum tryggð þau sjálfsögðu mannréttindi allra barna að fá að njóta uppvaxtar á öruggum stað.

Stelpur rokka! fara einnig fram á við stjórnvöld að endurskoða regluverk um útlendinga svo það endurspegli mun betur grunngildi kærleika og mannúðar. Regluverkið þarf ennfremur að taka tillit til þess að hælisleitendur eru í ólíkri stöðu. Þau sem eru jaðarsett vegna kyns, kynhneigðar, fötlunar, aldurs eða annarra breyta þurfa á ríkari vernd að halda. Við krefjumst þess um leið að hætt verði tafarlaust öllum brottvísunum flóttafólks og hælisleitenda til landa þar sem ljóst er að ekki er hægt að tryggja líf og heilsu fólks. Við þurfum að efla gildi samhjálpar og samstöðu á Íslandi og senda skýr skilaboð um að öll ungmenni eigi rétt á öruggu og innihaldsríku lífi, laus við ótta, kvíða og niðurlægingu þess sem er neitað um að búa á heimili sínu.

Stelpur rokka! skora að lokum á öll samtök, stofnanir og grasrótarhópa á Íslandi sem vinna með ungmennum og hafa félagslegt réttlæti að leiðarljósi að fordæma ákvörðun Útlendingastofnunar.

Í samstöðu með ungu stelpunum tveimur og öllum ungmennum í þeirra stöðu,

Sjálfboðaliðar Stelpur rokka!