Útgáfufélag Læti! verður til

Tidal Wave með hljómsveitinni Jæja Valgerður kemur út föstudaginn 3. maí

Læti! (Stelpur rokka!) eru frjáls félagasamtök sem bjóða upp á valdeflandi tónlistarkennslu fyrir einstaklinga af jaðarsettum kynjum á öllum aldri. Flottur hópur tónlistarfólks hefur myndast í kringum starfsemina undanfarinn áratug og því rökrétt næsta skref að hasla sér völl á útgáfusviðinu!

Föstudaginn 3. maí munu samtökin Læti! gefa út fyrstu smáskífuna, Tidal Wave, með hljómsveitinni Jæja Valgerður. 

Hljómsveitin varð til innan veggja Læti! og spilar þjóðlagaskotna og pönkaða rokktónlist. Meðlimir hennar eru Þórey Mjallhvít H. Ómarsdóttir sem syngur og spilar á gítar, Helga Dögg Björgvinsdóttir syngur bakraddir og spilar á hljómborð, Esther Þorvaldsdóttir spilar á trommur og Kristjana Guðjónsdóttir á bassa. Þær sóttu allar ýmis námskeið á vegum Læti!, t.d. rokkbúðir um hvítasunnuhelgi og hljómsveitatíma yfir veturinn. Sveitin tók upp lagið hjá upptökustjóranum Haraldi Erni Haraldssyni í hljóðveri Borgarbókasafnsins í Úlfarsárdal. Þórey teiknaði myndina sem prýðir smáskífuna en hún er myndhöfundur að atvinnu.

Tidal Wave varð til í COVID þegar að Þórey Mjallhvít gekk í gegnum krabbameinsmeðferð. „Lagið er mjög persónulegt, fjallar um að stundum langi mig bara ekkert út úr húsi. Miklu betra að fela sig bara aðeins inni,“ segir hún um lagasmíðarnar. „Það er alveg frábært að deila þessu lagi með stelpunum í hljómsveitinni, við höfum flestar gengið í gegnum eitthvað svona, þannig mér líður eins og þær tengi vel við lagið.“

Tidal Wave er bara fyrsta lagið sem Læti! hyggst gefa út. „Það lá beinast við að hljómsveit sem er fædd og uppalin innan samtakanna verði sú fyrsta sem gefur út undir merkjum Læti!“ segir Esther trommari sveitarinnar, sem er einnig framkvæmdastýra samtakanna. 

„Það er gaman að gefa út lag og það er alls ekkert stórmál. Þetta snýst auðvitað bara um stuðið og að fá listræna útrás á skemmtilegan hátt - eins og markmiðið er í öllu starfi Læti! Það er brjálað skemmtilegt að hitta stelpurnar, slúðra og spila einu sinni í viku, en núna fær annað fólk að heyra afraksturinn. Ég vona að útgáfan verði innblástur fyrir fleiri konur og fólk sem tilheyrir jaðarsettum kynjum í tónlist til að skrá sig í rokkbúðir, einkatíma, hljómsveitatíma eða bara stofna sínar eigin hljómsveitir úti í bæ.“

Við hlökkum til að deila fleiri lögum með ykkur í framtíðinni, enda nóg af flottum hljómsveitum hjá okkur í Læti!

Tidal Wave