Music Empowerment Mobility and Exchange: rokkbúðaundiraldan sem mun breyta heiminum!

Nú fer að líða að lokum MEME: Music Empowerment Mobility and Exchange, sjö mánaða löngu alþjóðlegu verkefni sem Stelpur rokka! áttu stóran þátt í að móta og leiða á árinu.

MEME-logo-for-exp-transparent.png

Af því tilefni langar okkur að deila með ykkur þessari ótrúlegu vegferð í gegnum frásagnir, myndir, myndband og auðvitað tónlist! Njótið :)

Það er erfitt að lýsa svona reynslu í orðum eingöngu.


Við kynnum því með stolti hljóðupptökur af öllum lögunum sem samin voru í rokkbúðunum í Berlín, ásamt stuttu myndbandi frá lokatónleikunum (textað á nokkrum tungumálum):

UM VERKEFNIÐ

Verkefnið hlaut styrk frá Erasmus+, samstarfáætlun ESB, og er samstarf 11 rokkbúðasamtaka frá 10 löndum víðs vegar um Evrópu. Samtökin eru ólík en starfa öll í anda rokkbúðahefðarinnar og miða að valdeflingu ungmenna sem upplifa mismunun á grundvelli kyns eða kyngervis. Flest leggja jafnframt áherslu á að ná til ungmenna sem búa við færri tækifæri af ýmsum ástæðum. Markmið verkefnisins var að gefa ungmennum og skipuleggjendum samtakanna tækifæri til að skapa alþjóðlegt rokkbúðarými þar sem þau gætu lært hvert af öðru, stutt hvert annað og tekið þátt í að byggja upp öflugt samstarfsnet evrópskra rokkbúða.

Yfir 60 ungmenni og meira en 50 leiðbeinendur og skipuleggjendur tóku þátt í annars vegar alþjóðlegum rokkbúðum í Berlín í júlí, og hins vegar rokkbúðaráðstefnu fyrir skipuleggjendur í Belgrad í september.

Báðir viðburðir, dagskrá þeirra, innihald og öll framkvæmd var unnið í láréttu samstarfi allra þátttökusamtakanna. Hver og ein samtök lögðu fram einstaka reynslu, þekkingu, sjálfboðaliða og ungmenni til að verkefnið gæti orðið að veruleika.

“Að taka þátt í Rokkbúðunum í Berlín opnaði fyrir mér nýja vídd í tónlistarsköpun. Í búðunum skapaðist einstakt en um leið nauðsynlegt rými til að prófa sig áfram á ólík hljóðfæri og finna fjölbreyttar leiðir til sköpunar. Í Berlín kynntist ég og læ…

“Að taka þátt í Rokkbúðunum í Berlín opnaði fyrir mér nýja vídd í tónlistarsköpun. Í búðunum skapaðist einstakt en um leið nauðsynlegt rými til að prófa sig áfram á ólík hljóðfæri og finna fjölbreyttar leiðir til sköpunar. Í Berlín kynntist ég og lærði á Synthesizer og raftónlistargræjur sem breyta algjörlega möguleikum mínum til þess að semja mína eigin tónlist.
Í rokkbúðum er allt hægt því allir hjálpast að við að finna leiðir og það viðhorf tek ég með mér heim.”
- Embla Guðrúnar Ágústsdóttir
(Ljósmynd: Małgo Grygierczyk)

ROKKBÚÐIRNAR Í BERLÍN

Í rokkbúðunum urðu til 7 hljómsveitir skipaðar um 40 þátttakendum. Aðrir þátttakendur mynduðu fjölmiðlateymi sem sá um að skrásetja búðirnar gegnum myndir, hljóð og vídjó, og skipulagsteymi sem sá um framkvæmd lokatónleikanna auk tónleika með hljómsveitum frá Berlín sem haldnir voru í miðri viku.

Bætið við það ótal vinnusmiðjum, ranghölum tónlistarakademíunnar í Berlín, gistiþorpi úti í skógi, morgunhringjum, hengirúmum, kvölddagskrá, eldhúsvöktum, listrænni ígrundun, 28°á celsíus, 3000 metrum af snúrum, risageitungum, karókí, dansíókí, u.þ.b. 239 excel skjölum, einum snák og lengsta “blóðmána” aldarinnar. Og þá höfum við MEME Berlínarrokkbúðirnar 2018 í stórum dráttum.

“MEME 2018 ráðstefnan ljáði þátttakendum innsýn inn í fjölbreytilega aðferðafræði mismunandi rokkbúða í Evrópu. Á sama tíma gafst tækifæri til þess að ræða margvísleg mál sem búðir standa frammi fyrir eða ættu að hafa til umhugsunar og mikilvægi þes…

“MEME 2018 ráðstefnan ljáði þátttakendum innsýn inn í fjölbreytilega aðferðafræði mismunandi rokkbúða í Evrópu. Á sama tíma gafst tækifæri til þess að ræða margvísleg mál sem búðir standa frammi fyrir eða ættu að hafa til umhugsunar og mikilvægi þess að huga betur að margbreytileikanum. Að mínu mati skapaði ráðstefnan góðan grundvöll til þess að deila reynslu, þ.e. fyrir upplýsingaflæði milli búðanna. Nytsamlegar umræður um ferlið að skapa nýjar búðir voru teknar í vinnustofu með eldri rokkbúðaleiðtogum og nýjum og metnaðarfullum verðandi rokkbúðaleiðtogum. Umræðuefnið bauð upp á víðara samtal um hvernig skipulagi og framkvæmd á búðum er háttað í mismunandi löndum, hvernig notaðar eru mismunandi, en alla jafna gagnlegar, aðferðir til þess að ná sameiginlegu markmiði.”
- Elísabet Elma Líndal Guðrúnardóttir (Ljósmynd: Rock Donna)

RÁÐSTEFNAN Í BELGRAD

Á ráðstefnunni í Belgrad fóru fram yfir 20 fjölbreyttar vinnusmiðjur, “skill-share” og panelumræður um allt frá fjáröflun og græjuskipulagi, yfir í hvernig við getum bætt aðgengi minnihlutahópa að rokkbúðahreyfingunni og eflt virka þátttöku ungs fólks. Auk þess fóru fram vinnufundir, stefnumótun og glæst framtíðarplön (MEME Vol. 2 hér komum við!). Að ógleymdri bátsferð um Dóná, metaltónleikum og jam sessjóni á Laugardagskvöldinu, og þremur ísbúðarferðum í bestu ísbúð í Serbíu.


REYNSLUNNI RÍKARI

Þetta er búið að vera heilmikil vegferð. Sviti og tár. Brött lærdómskúrfa með ýmsum misháum hindrunum í veginum. Í sönnum rokkbúðaanda tókst okkur hins vegar í sameiningu að yfirstíga þær allar. Skapa fyrstu alþjóðlegu hundrað manna (!) rokkbúðirnar sem haldnar hafa verið. Hittast svo á ráðstefnu til að styrkja enn betur samstarfsböndin, deila reynslu, víkka út samstarfsnetið og skipuleggja framtíðarverkefni (og heimsyfirráð - að sjálfsögðu).

Verkefnið hefur eflt þátttökusamtökin á margvíslegan hátt; aukið alþjóðlega meðvitund þeirra og fært þeim nýjar og ferskar hugmyndir til að nýta í starfi sínu og nærsamfélagi. Ótal ungmenni sneru til síns heima með magnaða rokkbúðareynslu í farteskinu og aukna trú á sjálf sig og hvert annað. Sjálfboðaliðar og skipuleggjendur fundu á eigin skinni að ötult og óeigingjarnt starf þeirra skiptir raunverulega sköpum. Í verkefninu tóku líka þátt einstaklingar frá öðrum löndum sem hafa hug á að stofna rokkbúðir, og sneru heim tvíefld, vitandi af þessu vaxandi stuðningsneti rokkbúðasamtaka.

Að lokatónleikunum loknum.  Ljósmynd: Marzena Kocurek

Að lokatónleikunum loknum.
Ljósmynd: Marzena Kocurek

Það verðmætasta sem verkefnið hefur skapað er þó án efa öll hin ómetanlegu vináttubönd, þvert á landamæri. Sú tilfinning að við stöndum ekki í þessu ein, heldur saman. Og saman getum við látið allra fjarstæðustu (og bestu) drauma okkar verða að veruleika!

We came we conquered, we delivered. We came together, we stood strong
— The Free Spirits, Berlin 2018
Ljósmyndari: Marzena Kocurec

Ljósmyndari: Marzena Kocurec

Rokkbúða- og byltingarkveðjur,

Auður Viðarsdóttir, verkefnastýra


Ásamt Stelpur rokka! tóku eftirfarandi samtök þátt í verkefninu (formlega og óformlega):

Ruby Tuesday e.V. Þýskalandi (gestgjafar rokkbúðanna í Berlín)

OPA / Femix Serbíu (gestgjafar ráðstefnunnar í Belgrad)

Girls Rock Dublin Írlandi

Girls Rock London Bretlandi

Fundacja Pozytywnich Zmian Póllandi

Pink Noise Austurríki

Stowarzyszenie Kobieca Transsmisja Póllandi

Girls Rock! Finland Finnlandi

Popkollo Svíþjóð

LOUD! Jentenes bandleir Noregi

Rock Donna Finnlandi

Gentur rokka Færeyjum

Og hér má finna sameiginlega heimasíðu Evrópunets rokkbúðabandalagsins (Girls Rock Camp Alliance)

ErasmusLogo.jpg

Viltu hlaupa fyrir Stelpur rokka! og Sól í Tógó?

VILTU HLAUPA FYRIR STELPUR ROKKA! OG SÓL Í TÓGÓ?

Stelpur rokka! og Sól í Tógó taka höndum saman og safna fé til reksturs rokkbúða fyrir stelpur í Tógó sem fara fram í september nk. Einnig er safnað fyrir vetrarstarfi nýstofnaðs tónlistarskóla fyrir stúlkur.

Stelpur rokka! og Sól í Tógó hafa undanfarin 2 ár stutt við framkvæmd rokkbúða og tónlistarskóla fyrir stelpur í Vestur Afríkuríkinu Tógó, en enginn tónlistarskóli er starfandi fyrir ungmenni í Tógó. Rokkbúðirnar í Tógó reiða sig nær alfarið á stuðning systursamtaka sinna á Íslandi. Við viljum þakka fyrir þann frábæra stuðning sem starf Stelpur rokka! hefur fengið á Íslandi og nýta þann góða meðbyr sem við höfum fundið fyrir, til þess að miðla rokkorkunni áfram til systursamtaka okkar sem þurfa á okkar stuðningi að halda. 

Rokkbúðirnar verða nú haldnar í þriðja sinn í september og eru það samtökun Asociación Mirlinda sem annast framkvæmdina undir styrkri stjórn tónlistarkonunnar Mirlindu Kuakuvi.  Rokkbúðirnar hafa slegið í gegn þau tvö ár sem þær hafa verið haldnar og vildu nær allir þátttakendur fyrstu rokkbúðanna sumarið 2016 koma aftur að ári, en sumarið 2017 var um helmingur þátttakenda að koma í annað sinn. Margar stúlknanna nefndu að í rokkbúðunum hefðu þær í fyrsta skipti fengið tækifæri til þess að prófa sig áfram í tónlistarstarfi á afslappaðan hátt. Margar minntust á hve óvenjulegt það væri að fá tækifæri til samveru með eingöngu stelpum og konum og hvernig sú samvera myndaði innilegt næði sem þær höfðu ekki upplifað áður.


Meginmarkmiðin með því að halda úti rokksumarbúðum fyrir stúlkur og tónlistarskóla fyrir konur og stúlkur í Tógó eru:

  • Að gera ungum tógóskum stúlkum kleift að öðlast rými til tónlistarsköpunar, rými sem er oftast ætlað drengjum.
  • Að skapa jákvætt, styðjandi og hvetjandi andrúmsloft til tónlistarsköpunar.
  • Að styðja tógóskar stúlkur í að láta sína eigin rödd heyrast, til að þora að taka áhættu og mistakast og til setja sig í nýjar og spennandi aðstæður.
  • Að styðja við tógóskar tónlistarkonur og efla samtakamátt þeirra en þær starfa, líkt og á Íslandi, í mjög karllægu umhverfi.
  • Að koma tógóskum stúlkum í kynni við sterkar tógóskar kvenkyns fyrirmyndir í tónlist.
  • Að efla samstöðu og samhjálp meðal stúlkna og kvenna í tónlist í Tógó.

 

Við hvetjum sem flesta til að hlaupa til að styrkja rokkbúðir fyrir stelpur í Tógó og að sjálfsögðu til að heita á hlauparana okkar.

Áheitasöfnun fer fram á www.hlaupastyrkur.is en skráningu í Reykjavíkurmaraþon má finna á slóðinni: https://www.rmi.is/

 

togo4.jpg
togo5.jpg
togo6.jpg
togo3.jpg
solitogo-logo.png
StelpurRokka_profileMynd.jpg

Fjáröflunartónleikar til styrktar stelpur rokka! á Húrra á föstudagskvöld

Fjáröflunartónleikar til styrktar stelpur rokka! á Húrra á föstudagskvöld

Við hvetjum vini okkar og velunnara að fjölmenna á tónleikaviðburð á föstudaginn 27. apríl á Húrra. Nemendur og kennarar við Listaháskóla Íslands skipuleggja viðburðinn og allur ágóði af kvöldinu rennur í græjukaupasjóð Stelpur rokka! - Við erum mjög þakklát fyrir stuðninginn og vonumst til að sjá sem ykkur sem flest! 

Skráning hafin í alþjóðlegar rokkbúðir í Berlín fyrir 16 til 30 ára

Skráning hafin í alþjóðlegar rokkbúðir í Berlín fyrir 16 til 30 ára

Stelpur rokka! kynna: 

Alþjóðlegar rokkbúðir í Berlín 23. - 29. júlí fyrir ungmenni á aldrinum 16-30 ára! 


Stelpur rokka! eru hluti af alþjóðlegu samstarfsneti rokkbúða og í sumar verða í fyrsta skipti haldnar alþjóðlegar rokkbúðir í Evrópu. Samtökin Ruby Tuesday í Berlín halda utan um ungmennarokkbúðirnar í júlí. Þar munu koma saman 60 ungmenni á aldrinum 16-30 ára, ásamt 30 skipuleggjendum og leiðbeinendum, frá 11 mismunandi rokkbúðasamtökum í Evrópu. Þátttaka í rokkbúðunum kostar ekkert. Öll ferðalög, gisting og matur er innifalið í þátttöku.